Ferðafélagi

Ferðast um heiminn með vini, ástinni - eða mömmu!
Með hverjum fær maður bestu ferðaupplifunina? Hér að neðan fylgir listi yfir kosti og galla ólíkra ferðafélaga.

Aleinn

Að ferðast einn er mikil áskorun. Þú sérð einn um alla skipulagningu og hefur engan stuðning ef eitthvað kemur uppá. Á hinn bóginn þá þarftu aldrei að gera málamiðlanir og frelsistilfinningin er algjör. Þar að auki kynnast margir sem ferðast einir fullt af nýju fólki því þeir "neyðast" til að vera opnari við ókunnuga en fólk sem ferðast saman. Í rauninni er það svoleiðis hjá mörgum sem leggja einir af stað í reisu að þeir ferðast nánast ekkert einir þar sem þeir eignast svo mikið af
samferðarfólki á leiðinni.

Konur að ferðast einar

Það er engin ástæða fyrir því að þú sem kvenmaður getir ekki ferðast ein í bakpokaferð. Það eina sem þarf að hafa í huga eru venjur og siðir í því landi sem þú sækir heim. Á sumum stöðum er kona litin hornauga ef hún drekkur ein á bar, reykir opinberlega, farðar sig of mikið eða er helst til léttklædd. Því skaltu reyna að skera þig ekki of mikið úr til þess að forðast að ögra eða móðga fólkið í landinu. Það gildir að sjálfsögðu einnig um karlmenn. Málið er bara að það finnast ekki margir staðir á jörðinni þar sem fólk myndi hnykla brýnnar yfir að sjá karlmann sitja einan við drykkju á bar.

Vinir

Að ferðast með bakpoka heimshluta á milli með góðum vini er einstakt tækifæri og eitthvað sem okkur finnst að allir ættu að íhuga áður en maður byrjar að stofna fjölskyldu. Þegar þú ferðast með öðrum deilið þið ábyrgð og það er gaman að geta rifjað upp skemmtilegar sögur þegar heim er komið. Ef annar er í feimnari kantinum en góður að lesa á kort, getur hinn sem er opnari spjallað við ókunnuga og spurst til vegar. Áhættan við að ferðast tveir saman í langan tíma er að vinskapurinn gæti endað þvingaður og það getur auðveldlega sett leiðinlegan blett á ferðina. Þegar fleiri vinir ferðast saman geta þeir átt auðveldara með að "þola hvor annan" í langan tíma, en á móti kemur að erfiðara er að taka sameiginlegar ákvarðarnir. Því getur verið sniðugt að ákveða áður en lagt er af stað að það sé í lagi að taka sér nokkura daga pásu frá samverunni og hittast svo aftur endurnærður á nýjum stað.

Kærustupar

Kærustupar geta verið ástfangin uppfyrir haus einn daginn en í hörkurifrildi hinn daginn. Þannig gengur það líka fyrir sig á ferðalaginu. En ef þið getið haldið jafnvæginu í áttina að kærleikanum, þá eigið þið fallegar og skemmtilegar upplifanir í vændum. 

Til að tryggja meiri kærleik og minni rifrildi á ferðalaginu er alltaf gott að ræða hlutina til mergjar áður en lagt er af stað. Ákveðið ráðstöfunarfé (ef það er sameiginlegt er ráðlagt að skammta vasapening), ákveðið ábyrgðarhlutverk og ákveðið ferðaáætlunina í smáatriðum. Því minna sem hægt er að deila um í sjálfri ferðinni, því skemmtilegri verður ferðin - því er alltaf betra að rífast áður en lagt er í hann.

Með mömmu

Bakpokaferðalag eða heimsreisa með múttu! Það er eflaust einhver sem gerir það, en við myndum ekki mæla með því að öllu jöfnu. Hinsvegar getur verið huggulegt að fá heimsókn frá foreldrum eða fjölskyldu einhvers staðar á leiðinni. Það getur dregið úr heimþrá en einnig verið dekur, t.d. gæti verið að þú fengir að gista á hóteli í nokkra daga og fengið nokkrar góðar máltíðir.

Með börn

Bakpokaferðalag með litlum börnum er ekki eitthvað sem við mælum með. Bakpokaferðalag snýst um að upplifa öðruvísi staði á litlu ráðstöfunarfé og vera sveigjanleg/ur. Þau vilja mun frekar vera í kringum sundlaug, leika sér með leikföng og eyða tíma með mömmu og pabba – ekki mikið meira en það. Ef þú hins vegar verður að taka með þér lítið barn vertu þá viss um að hafa nóg af góðum pásum á ágætum hótelum inn á milli framandi staðanna og leyfðu barninu að njóta sín. Sniðugt er að taka með afþreyingu eins og tölvuleiki eða bíómyndir fyrir flug og ferðalög. Eldi börn (12 ára og eldri) eru mun líklegri til þess að geta notið þess að ferðast með þér á bakpokaferðalaginu.

Annar félagsskapur á leiðinni

Það þarf ekki endilega að skipuleggja ferðafélaga áður en lagt er í ferðina. Það eru nefnilega miklar líkur á að þú hittir og eignist ferðafélaga á leiðinni. Veröldin er full af ferðamönnum sem eru opnir og spenntir fyrir að kynnast öðru fólki. Hótel, rútur, farfuglaheimili og aðrir týpískir staðir þar sem bakpokaferðalangar koma saman eru upplagðir staðir til að eignast nýja vini frá ótal mismunandi löndum.

Önnur góð leið til að eignast ferðafélaga er að taka þátt í ævintýraferðum. Ferðirnar geta verið rafting, safarí, gönguferðir, borgarferðir eða menningarupplifanir og geta staðið yfir í allt frá einum degi upp í heilan mánuð.

Hafa samband