Cuzco

Plaza cathedral
 

Cuzco - Heimkynni Machu Picchu

Komdu að heimsækja eina af hæstu borgum í heiminum, týndu þér í töfrum hennar, sjarma og njóttu fallegrar staðsetningar á milli tveggja stóra Andesfjalla. Cuzco er nauðsynlegur áfangastaður á leið þinni að Machu Picchu en gættu þess að hafa tímann fyrir þér og gera ráð fyrir að eyða nokkrum dögum í borginni. Gakktu um róleg strætin, áhugaverða markaði og skoðaðu sögulegar byggingar.

Þegar þú kemur með flugi til Cuzco, gömlu Inkaborgarinnar sem liggur hátt í Andesfjöllum Perú, ættir þú að reyna að ná þér í gluggapláss í flugvélinni. Það er magnað að horfa yfir þessa fallega staðsettu borg, sem úr lofti virðist rauðleit þar sem mörg húsin eru byggð úr rauðum tígulsteini. Borgin liggur í 3.300 metra hæð, mitt í hinum ógurlegu og hnarreistu Andesfjöllum. Þó að borgin sé þekktust fyrir að vera staðsett nálægt hinum frægu Machu Picchu Inkarústum, er Cuzco í sjálfri sér aðdráttarafl og þess virði að eyða nokkrum dögum í að skoða hana.

Cuzco er mjög hrífandi borg

Hér finnur maður heillandi blöndu af Perú nútímans, spænsk-kaþólskum áhrifum og áhrifum frá fólksflutningum, að ógleymdri stemningu frá fyrri tímum þegar Inkaveldið var upp á sitt besta og hafði höfuðstað hér í Cuzco. Hvað varðar þetta síðastnefnda þá geymir bærinn mjög spennandi arfleifð frá Inkatímanum en góð hugmynd er að skoða sögulegar minjar áður en ferðalagið heldur áfram til  aðalaðdráttarafls svæðisins, Machu Picchu. Eyddu nokkrum dögum hér og fáðu tækifæri til að venja þig við þunna loftið hér uppi í hæðunum (ef þú hefur ekki þegar gert það) áður en þú gengur alla leiðina til Machu Picchu. Til að byrja með verður maður andstuttur af næstum engu en líkaminn venst því á endanum.

Bakpokaferðir í Cuzco og gömul Inkamenning

Cuzco dregur að sér bakpokaferðalanga og ferðamenn frá öllum heiminum, svo ekki búast við því að hafa staðinn út af fyrir þig! Þetta þýðir að ekki reynist erfitt að kynnast nýju fólki sem maður getur deilt með krús af bragðgóðum bjór staðarins. Tilvalið er að setjast niður með öðrum ferðalöngum á kósý bar eða kaffihús og fá ráðleggingar um ferðina til Machu Picchu eða undirbúa að fara saman í ferðina. Já, Cuzco er lífleg og lifandi borg þar sem ferðamenn hittast.

Sem betur fer er borgin meira og minna ósnortin. Engin lúxushótel hafa verið byggð hér eða neitt slíkt, hús og byggingar líta enn eins út og fyrir mörgum árum síðan. Hótel, veitingahús og barir eru, með öðrum orðum, staðsett í heillandi gömlum húsum sem bera enn keim af Inkatímanum. Við mælum með því að ferðamenn skoði hinn fræga „tólfkantaða stein“ (e. twelve angle stone) – sem liggur fullkomlega við aðra steina í hlöðnum vegg í fallegri götu í Cuzco. Þegar haft er í huga að þessi veggur og aðrar byggingar á svæðinu voru gerðar án hjálpartækja nútímans vekur það upp spurningar í huga okkar um framkvæmdina og við verðum heilluð af því hversu nákvæm byggingin er. Eins og þú getur ímyndað þér er mikið að sjá í Cuzco sem opnar augu ferðamanna á þennan hátt. Rétt fyrir utan bæinn má líka finna leifar frá Inkatímum, rústirnar við Sacsayhuaman, Tambo Machay og Qenko. Þú ættir einnig að heimsækja hellarústirnar í Ollantaytambo, 60 kílómetra frá Cuzco.

Lamadýr, verslun og markaðir í Cuzco

Í Cuzco er ekki hægt að forðast að rekast á lamadýr en þau eru hvarvetna á götum bæjarins. Hvað verslun varðar hefur bærinn bæði góðar og ekki eins góðar búðir sem bjóða upp á minjagripi og handverk frá svæðinu. Langbest er að fara á markaðina, þar sem maður hittir fullt af íbúum svæðisins í litríkum indíánaklæðum. Þar er hægt að gera virkilega góð kaup. Hér finnst mikið af handgerðum munum, til dæmis úr alpaca ull (alpaca er tegund af lamadýri) sem er svo mikið af á svæðinu. Keramik, málverk og alls kyns teppi og sjöl er hægt að fá á mjög ódýru verði á mörkuðum í Cuzco. 

Hafa samband