Brasilía

Kókoshnetur er hægt að kaupa allstaðar í Brasilíu. Passaðu þig þó að fá þér ekki of margar. Þú gætir fengið illt í magann.
 

Ferðir til Brasilíu - Ógleymanlegar upplifanir

Brasilía er jafn stórkostleg og hún er stór. Hér eru svo margir áhugaverðir staðir og margar upplifanir að það er erfitt að ákveða hvar skal byrja: Skemmtilegt fólk, magnaðar strendur, stærsti frumskógur heims, fen og votlendi með einstöku dýralífi, fallegar og skemmtilegar borgir, samba og fótbolti, flottir fossar, hrikalegir klettar og gljúfur, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Fernando De Noronha

Það er alveg á hreinu að byrja þarf ferðina í hinni frægu borg, Rio de Janeiro. Það freistar að eyða öllum tímanum hér, þvi borgin býr yfir miklum sjarma, leyndardómum og svo mörgum litríkum og glæsilegum hverfum að erfitt er að slíta sig frá. Þú kemst fljótt að því að Ríó er svo miklu meira en Copacabana og kjötkveðjuhátíðin. Þegar þú ferðast frá Ríó um Brasilíu er best að skella sér upp í næstu rútu. Rútur eru langbestu og ódýrustu samgöngurnar og hér hittirðu líka fyrir fullt af hressu og skemmtilegu fólki.  

Eyjan sem þú munt aldrei gleyma - Ilha Grande

Kannski hljómar nafnið Ilha Grande ekki jafn kunnuglega og aðrir staðir í Brasilíu, eins og til dæmis Ríó. En þessi eyja, sem er í nokkra klukkutíma fjarlægð suðvestur af Ríó, er yndisfögur og erfitt að lýsa í fáum orðum. Kristaltær túrkisgræn vötn, hver heillandi ströndin á fætur annarri (Lopes Mendez-ströndin ber samt af) og óhóflega dökkgræn gróðursæld sem breiðir sig svo langt sem augað eygir, svo ekki sé minnst á myndrænu fjallshlíðarnar sem skella beint niður í sjó. Hér eru engir malbikaðir vegir, næstum engir bílar og hér geturðu virklega notið þess að vera einn með sjálfum þér í fullkomnu og notalegu umhverfi. Eyjan er töfrum líkust.

Brasilía - himinn á jörðu

Sjávarsíðan við meginland Brasilíu nálægt Ilha Grande býður upp á allmarga fallega flóa og nýlenduborgir, sérstaklega Paratí, og hinum megin við Ríó liggur Niterói. Það er almennt álit manna að Brasilía hefur að geyma sannkallaða gullmola. Hver ströndin er flottari og glæsilegri en sú sem þú sást þar á undan, og það er hér, á ströndunum, sem lífsins er notið frá sólarupprás til sólarlags. Klappstólar, sólskyggni (besti vinur þinn í Brasilíu) eru dregin alveg upp að sjávarbrún. glaðværir, berfættir þjónar færa þér ískaldan bjór, caipirinhas, grillaðar rækjur og hressandi, suðræna safa. Fótbolti er spilaður á ströndinni og lífið er eitt stórt partý. Alls staðar heyrirðu portúgölsku, þetta sjarmerandi tungumál sem þú fljótt lærir að elska. 

Ef þig vantar meiri fjölbreytni þá standa hrífandi borgir í röðum eftir strandlengjunni: Salvador, Recife, Sao Luis og Belém. Allar þessar borgir eru orgíur af litum, ilmum, bragðtegundum og hljóði með sínum heillandi mörkuðum, nýlendubyggingum og litríku og lífsglöðu mannfólki.

Brasilía - sannkölluð sandparadís

Ekki yfirgefa ströndina fyrren þú hefur heimsótt afskekkta þorpið Jericoacoara sem liggur á milli Sao Luis og Fortaleza. Eina leiðin til komast þangað er að fara með fjórhjóladrifnum jeppa yfir sandöldur, strendur og vatnsfarvegi. Í þessari paradís líður þér eins og þú sért kominn á heimsenda, svo afskekkt er þetta. Þessi fagri staður er umkringdur sandöldum, hér er ótrúlega falleg strönd og huggulegir strandbarir sem breytast í snilldargóða veitingastaði að kvöldi með fisk og sjávarréttum eins ódýrum og alls staðar í Brasilíu. Ekki missa af spennandi bíltúr á buggy bíl eða fjórhjóladrifnum jeppa í gegnum brattar og nánast óraunverulegar sandöldur - skemmtun engri lík!

Vatnaævintýri og frumskógardýr

Það er ráðlagt að gista í pousadas í Brasilíu. Þessi einföldu hótel eru ódýr og eru einstök leið til að kynnast landinu - og þau eru allsstaðar. Jafnvel í pínulitlum þorpum í miðju Amazon, stærsta frumskógi jarðar. Amazon er algert möst að koma til og hér geturðu lent í ýmsum ævintýrum, eins og að ferðast á fljótabáti á meðal hundruða heimamanna, sem stíga inn og af í litlum afskekktum þorpum. Hér upplifirðu landið allt öðruvísi en á ströndunum, og er nauðsynlegt að upplifa bæði.

Augljósasta leiðin er að fara frá stórborginni Manaus í miðjum frumskóginum og fara með ströndu, alla leið til Belém. Þú sefur í hengirúmi á þilfarinu og þegar líkami þinn byrjar að öskra á nýjan svefnstað, til dæmis notalegan pousada, mælum við með að þú farir af í Santarém og stefnir á litla þorpið Alter do Chao. Hér kemstu í tæri við óhreyfða, villta frumskógatöfra. Hér við óshólma árinnar eru kalkhvítar og stórfenglegar sandstrendur, hér geturðu siglt í gegnum fenjaviði, kafað eftir sérkennilegum fiski (sem við evrópubúar þekkjum bara úr sædýrasöfnum), upplifað þá stórkostlegu sýn að sjá bleika höfrunga bregða á leik í vatninu. 

Og auðvitað verða allir - hvort sem það er hér eða annarstaðar í Amazon - að fara í lengri för með leiðsögumanni um frumskóginn, þar sem þú sefur undir berum himni í dimmum frumskóginum og hlustar á þúsundir syngjandi cicadas og önnur næturdýr. Að degi til áttu eftir að verða agndofa af öllum hrífandi stöðunum og dýrunum: krókódílar, apar, páfagaukar, nagdýr, tarantúlur og, með smá heppni, fjallaljón eða hlébarða. Möguleikarnir á að sjá þessi dýr eru jafnvel betri í Pantanal suður af Amazon, sem er rakt og stórkostlegt votlendi á stærð við Frakkland! Ó já, Brasilía er svo gríðarstór og margþætt að þú verður bara að fara sjálfur og upplifa allt sem við komumst ekki yfir að nefna hér...

Hafa samband