Kólumbía

Cartagena - Kólumbía
 

Kólumbía - kemur skemmtilega á óvart

Milli Karabísku strandlengjunnar, Kyrrahafsstrandarinnar, Amazon frumskógarins og risastórra fjallgarða liggur Kólumbía, land andstæðnanna. Hiti og snjór, pálmatré, villtar ár, lítil þorp og stórborgir, fornar rústir Maya indjánana og arkitektúr spænsku landvinningarmannanna, fátækt og ríkidæmi, litlir salsabarir og stórir teknóklúbbar - Kólumbía býður upp á allt!

Kólumbía er hrá, ástríðufull og ósnert. Besti tíminn til að heimsækja er núna! Hættuleg? Nei, ekki meira eða minna en önnur lönd Suður Ameríku. Mikil áhætta? Já, mesta áhættan er að þú viljir aldrei fara þaðan!!

Bogota

Áður var Bogota miðpunktur pólitískra átaka og borgarastríðs en nú er borgin glansandi miðpunktur Rómönsku-Ameríku. Bogota er ekki aðeins borg öfganna, heldur í raun borg án takmarkana. Þegar þú keyrir frá suðri til norðurs í þessari 9 milljón manna borg ferð þú frá ótrúlegri fátækt, gegnum miðstéttarhverfi, til ótrúlegs ríkidæmis á einum klukkutíma. Götukaupmenn með 5 farsíma hangandi utaná sér sem selja inneign á öllum gangstéttum. Í landi þar sem efnahagurinn samanstendur aðallega af óformlegum mörkuðum, er alltaf nóg að gera á götunum. Það er þar sem allt gerist! Farðu út að borða fyrir eina Evru, fáðu gamlar saumakonur til að sauma á þig föt eða uppgötvaðu lúxusinn í ríkulegum verslunarmiðstöðvunum. Langar þig í eitthvað annað? Hoppaðu upp í lyftu upp á 43. hæð og labbaðu inn á einn besta raf/teknóbarinn í bænum, og upplifðu Bogota að nóttu til frá svölunum – borgin liggur fyrir fótum þér.

Medellin

Næststærsta borg Kólumbíu, einnig þekkt sem höfuðborg lýtaaðgerðanna, er Medellin. Fyrir utan það er hún fæðingarborg hins víðkunna listamanns Botero. Þar getur þú skoðað safn helgað honum og séð margar styttur eftir hann á götum borgarinnar. Farfuglaheimili eru yfirleitt staðsett í miðju djammsvæðinu - ódýr en oft mjög vel útbúin. Ekki láta koma þér á óvart ef drykkurinn sem þú pantar þér kemur í lítra flösku, og ekki hafa áhyggjur, þeir eru samt á mjög viðráðanlegu verði. Áttu eftir einhverja orku um morguninn? Farðu í svifflug yfir dalinn og upplifðu borgina frá allt öðru sjónarhorni.

Cali

Á meðan konurnar í Medellin eru allar að eltast við staðalímynd fegurðarinnar eru konurnar í Cali aðallega á fleygiferð, því þetta er salsa borgin. Finnst þér leiðinlegt að dansa? Viltu ekki læra salsa? Ekki koma hingað þá. Allir eru velkomnir á dansgólfið og heimamenn elska að bjóða upp á ókeypis kennslu!

Sæta Suðrið

Komið nóg af stórborginni? Ertu að leita að ekta upplifun? Taktu rútu frá Bogota og hoppaðu út í San Augustin. Heimsæktu eitt af litlu hótelunum í þorpinu þar sem allir geta sagt þér að í bænum búa nákvæmlega 29 útlendingar. Fáðu þér morgunmat með heimabökuðu brauði og farðu á hestbaki gegnum dalinn sem skreyttur er gullfögrum fornum styttum. Láttu útskýra fyrir þér fæðingardaginn þinn samkvæmt fornri Maya speki og hoppaðu svo um borð í bát og upplifðu river rafting á stigi 3 og 4. Allt er hægt, og náttúran ræður ríkjum.

Amazon frumskógurinn

Finnst þér heillandi að upplifa einfalda lífið, búa í kofa með hreint vatn og ferskt loft, með iðagrænan gróður allt um kring? Þá er upplagt fyrir þig að heimsækja Kólumbíska hluta Amazon frumskógarins. Fljúgðu frá Bogota til Leticia í suð-austur Kólumbíu og uppgötvaðu þessi “endimörk jarðarinnar”. Héðan getur þú gengið til Brasilíu, siglt til Perú, eða siglt um svæðið með heimamönnum á kajak. Leiktu við apa, veiddu píranafiska eða leitaðu að bleikum höfrungum – sem eru ekki til neinsstaðar annarsstaðar á allri jörðinni. Heimsæktu infædda indjána sem tala sín eigin einstöku tungumál eða gakktu með sveðju um frumskóginn - upplifðu Amazon!

Costa Caribe

Áttu ennþá eftir einhverja orku? Hoppaðu upp í rútu með heimamönnum og keyrðu gegnum einskismannslandið til norðurs. Svo vaknar þú í Cartagena, stærstu nýlenduborg Rómönsku-Ameríku. Sofðu í nýlenduhlutanum og keyrðu í hestvagni gegnum sögulega borgina meðal gullfallegra, litríkra húsa.

Komið nóg af menningu fyrir þig? Farðu til Santa Martha, en þaðan getur þú tekið lítinn sendibíl og endað í paradís bakpokaferðamanna – Taganga - en þar eru í boði ódýrustu köfunartímar Suður Ameríku. Ströndin er þín - sofðu í hengirúmi og uppgötvaðu alvöru náttúru.

Gisting í Kólumbíu

Jafnvel þótt landið sé ekki ennþá alveg undirlagt af ferðamönnum, þá er fullt af farfuglaheimilum útum allt. Verðin eru lág, eins og þú kemst að þegar þú ætlar að borga fyrir nóttina. Á Karabísku ströndinni finnur þú mörg lítil hótel, og í Tangana gistir þú í hóteli á verði farfuglaheimilis!

Hvenær er best að fara til Kólumbíu?

Besti tíminn er núna! Uppgötvaðu Kólumbíu af eigin raun, æfðu þig í spænsku með heimamönnum og upplifðu það að vera eini útlendingurinn á svæðinu.

 

Hafa samband