Kathmandu

Kathmandu er upphafsstaður göngufólks frá öllum heiminum sem vill ganga á Everest
 

Kathmandu - Borg ævintýra og andlegra upplifana

Kathmandu, hin erilsama höfuðborg Nepal, samanstendur af fjölbreyttum sögulegum hofum og nýtískulegum skýjakljúfum. Þetta er fullkominn staður til þess að byrja ævintýri þitt í háu tindum Himalayafjallana. Borgin geymir ríkulegan menningararf og það er hægt að skoða marga staði fyrir utan borgina. Kathmandu hefur lengi verið vinsæl miðstöð fyrir bakpokaferðalanga og þá sem elska ævintýri.

Ævintýrin byrja í Kathmandu

Kathmandu er upphafspunktur fyrir mörg ævintýri. Himalaya fjöllin bjóða upp á ótal tækifæri fyrir spennandi jaðaríþróttir og þú getur t.d. farið í kanóferðir, gönguferðir, rafting, frumskógargöngur o.fl. Ef þú vilt njóta dásamlegs útsýnis án þess að fara í mjög erfiða göngu er hægt að fara í nokkurra daga gönguferð að skoða tignarleg fjöllind, t.d. að Nagarkot. Ef þú vilt styrkja hug þinn og líkama eru margar jóga- og hugleiðslustöðvar í Kathmandu og nágrenni. Þú getur líka lært um búddisma eða bara farið í nudd.

Durbar torg

Þetta torg er fullt af frábærum hofum og höllum. Torgið er á heimsminjaskrá UNESCO og þar eru haldnar margar hátíðir. Þú ættir m.a. að skoða Durbar Square Museum. Það er gaman að sjá öll hofin en ekki missa af því sem er byggingarlistaverk í sjálfu sér, Taleju hofið sem er það elsta á svæðinu og er með þrjú þök.

líflegar götur Kathmandu

Thamel - veitingastaðir og verslanir

Á þessu svæði halda ferðamennirnir sig að miklu leyti. Hér eru gistihús, barir, netkaffihús og veitingastaðir. Hér má líka finna mat frá öllum heimshornum og þar sem Nepal er kaffiframleiðandi er hægt að fá virkilega gott kaffi á þessum slóðum jafnvel þó að íbúar landsins séu þekktir fyrir að drekka te. Prófaðu nepalskan bjór, Chang, og vín, Raksi. Þegar kemur að því að versla þá getur þú fundið tiger balm (vöðvakrem), fatnað úr hempi, silkiklúta og kasmírtrefla, hippalegar vörur og fjallgöngubúnað. Ferðamenn kaupa líka teppi og mottur ásamt raftækjum sem kemur á óvart hvað kosta lítið hér. Passaðu samt að festast ekki í því að versla í Thamel, það eru margir aðrir áhugaverðir staðir í Kathmandu!

Nálægt konungshöllinni er friðsæll og fallegur garður sem heitir Draumagarðurinn; fullkominn staður til að slappa af á.
Til að fá gott útsýni yfir borgina ættir þú að fara til Swayambunath sem er aðeins í um 20 mínútna göngufjarlægð frá Thamel. Það þarf að borga aðgangseyri en það er þess virði. Aðeins 8 km frá Thamel og í 1.420m hæð er þorpið Chobhar en þaðan er líka frábært útsýni yfir dalinn sem Kathmandu stendur í.
Ferðamenn flykkjast líka á Freak Street þar sem eru leifar af hippatímabilinu. Gatan liggur suður frá Basantapur torgi. Þar eru veitingastaðir, ódýr gistiheimili og litlar verslanir sem selja varning sem tengist uppljómun þinni.

Boudhanat Stupa í KathmanduBoudha Stupa - heilagt svæði í Kathmandu

Boudha Stupa er dásamlegur gimsteinn í Kathmandu. Þetta er eitt heilagasta svæði tíbetska búddista og algjörlega heimsóknarinnar virði. Svæðið samanstendur af mörgum búddahofum með tíbetskum munkum og nunnum sem kyrja möntrur. Lyktin af reykelsi er dáleiðandi og af virðingu gengur þú sólarhringsgang um stúpuna. Þú finnur fyrir tíbetrskri menningu og sjerpamenningu og jafnvel Himalajamenningu. Prófaðu að fá þér tíbetska rétti eins og Momos og Thukpa sem eru seldir á veitingastöðum og náðu þér í nokkra fallega, handgerða muni. Nálægt Boudha Stupa er hið fallega Shechen klaustur með skemmtilegan veitingastað í garðinum og gistihús.

Pashupatinath er mikilvægt hof sem stendur til heiðurs Shiva – guðs dýranna. Farðu að þessum dulmagnaða stað snemma morguns og þá máttu búast við því að sjá nokkra apa.

Hægt er að fara í stuttar ferðir til nálægra svæða, t.d. kíkja á Royal Chitwan þjóðgarðinn, þar sem þú færð að skoða frumskóginn á láglendi landsins. Við mælum með að heimsækja Nagarkot sem er í 2000m hæð og er staðsett í um 30 km fjarlægð frá Katmandú. Þetta er fullkomin leið til að komast út úr ys stórborgarinnar, horfa á sólarupprásina og líða eins og þú sért að sjá sólina rísa í fyrsta skiptið.

Farðu í gönguferðir út frá Kathmandu og upplifðu magnað landslag Nepal

Hátíðir í Kathmandu sem þú ættir ekki að missa af

Flestar hátíðirnar eru haldnar á Durbar torgi. Holi-litahátíðin í mars er sóðaleg en skemmtileg með lituðu dufti og vatni allsstaðar. Ljósahátíðin, Tihar eða Dipawali er fimm daga hindúhátíð sem er haldin einu sinni á ári í lok október og byrjun nóvember. Hátíðin snýst um ljósker, kerti og flugelda. Bikram nýárið er í apríl og þetta er dagur pílagríma. Uppskeruhátíðin Indra Jatra stendur yfir í átta daga í september. Kvennahátíðin, Teej, er líka í September þar sem ógiftar konur og stúlkur vaka alla nóttina og fagna og biðja fyrir framtíðareiginmönnum sínum á meðan giftar konur klæðast sínum rauðu brúðkaupsklæðum (sari) og heimsækja karlkyns ættingja sína.

Að komast á milli staða í Kathmandu

Það getur verið erfitt að rata í Kathmandu og til að gera hlutina enn meira spennandi eru göturnar yfirleitt ekki merktar. Ef þú spyrð til vegar er þér bent á kennileiti t.d. Thamel hverfi og Kathmandu gistiheimilið...
Skoðaðu borgina með því að fara fótgangandi, á hjóli eða jafnvel á vespu. Leigubílar eru til staðar á stærri götum. Mundu að semja um verð fyrirfram. Ef þig langar að fara til nálægra svæða ættir þú að leigja bíl með bílstjóra. Það er ekkert lestarkerfi en þú getur notað rútur, þær eru ódýrar og fara til næstum allra horna landsins. Athugaðu fyrirfram hvort það er lagi með rútufyrirtækið því sum þeirra eru frekar hættuleg. Seinkanir eru algengar, þökk sé slæmum vegum.

Rútur fara á milli Delhi, Varanasi, Gorakpur, Lucknow og ákveðinna hluta af Nepal eins og  Royal Chitwan þjóðgarðarins og göngusvæðanna Pokhara, Langtang og Jiri. Rútur sem koma frá landamærum Indlands, Pokhara og Chitwan stoppa á rútustöðinni í Balaju í norðri eða Kalanki í suðurhluta borgarinnar. Ástæðan fyrir þessu er að rútur mega ekki koma inn í borgina vegna umferðartakmarkana. Flugvöllurinn í  Kathmandu er eini alþjóðaflugvöllur landsins. 

Öryggi í Kathmandu

Kathmandu er frekar örugg borg. Hins vegar enduðu hernaðardeilurnar milli ríkisstjórnarinnar og maóista ekki fyrr en árið 2006 og stöðugleiki landsins er því ekki mikill. Þú ættir að forðast það að draga athygli almennings að þér og gæta þess að fylgjast vel með fréttum. Ofbeldisglæpir gagnvart ferðamönnum eru ekki algengir en þú þarft að gæta þín á vasaþjófum og forðast að vera á ferð eftir myrkur.
Athugaðu ástand vega áður en þú ferð úr borginni og passaðu þig á vatninu í Kathmandu, það er næstum banvænt!

Hafa samband