London

London Bridge
 

London - Hjarta Englands

Menningarleg og söguleg uppspretta sem tæmist aldrei, líflegt næturlíf og afslappað andrúmsloft. Dásamlegir grænir garðar, skemmtileg hverfi og fjölbreytt mannlíf. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að London verður alltaf stórborg sem ferðamenn heimsækja aftur og aftur. London skilar alltaf réttri stemningu, hvert sem tilefnið er.

Skoða, sjá, upplifa í London

Það er gríðarmargt að skoða, sjá og upplifa í London og ef þú heldur að þú getir gert það allt í einni ferð þá lifir þú í draumaheimi. Það er því skemmtileg áskorun að plana hvað þú ætlar að komast yfir að gera í borgarferð til London. Ef þú ert meira fyrir menningar- og sögulega skemmtun ættu Tower of London, Buckingham Palace eða Houses of Parliament (Big Ben) að vera ofarlega á listanum þínum. Þessar byggingar eru stórkostlegar og allar hafa þær sögulegt gildi og sérstakt hlutverk. Þú ættir jafnframt að fara á Victoria and Albert Museum og galleríið Tate modern .

Léttari menningarupplifun?

Ef þú ert meira fyrir léttari menningarupplifun getur þú farið á Madame Tussauds vaxmyndasafnið þar sem fjöldinn allur af frægum einstaklingum hefur verið mótaður úr vaxi (í fullri stærð). Önnur leið er að fara og sjá einn af hinum frábæru bresku söngleikjum. Þeir sem vilja sjá London frá sjónarhorni fugla verða að skella sér í London Eye – gríðarstórt parísarhjól sem gefur frábært útsýni yfir borgina. Kannski væri það eitthvað sem væri hægt að byrja ferðina á? Einn annar uppáhaldsstaður er Hyde Park – grænn, indæll og góður fyrir lautarferðir. Hægt er að lesa ítarlega um alla þessa nauðsynlegu áfangastaði í ferðahandbókum en með því að fjárfesta í slíkri bók er auðvelt að fá góðar, nytsamlegar upplýsingar.                 

Verslunarferð til London

London býður upp á allt það besta fyrir þá sem elska að versla þannig að það er augljóst að á ferðalagi þangað er nauðsynlegt að endurnýja fataskápinn heima. Oxford street er hin klassíska verslunargata en þar ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Í London má jafnframt finna marga skemmtilega markaði, t.d. Camden (til að komast þangað tekur þú neðanjarðarlest til Camden town) eða Portobello Road (neðanjarðarlest til Notting Hill Gate). Þar eru verslunarhættir öðruvísi og afslappaðri, andrúmsloftið er notalegt og byggingar fallegar. Ef þú ert mikið fyrir hluti með sál má finna slíkar vörur á báðum þessum mörkuðum.  

Ef þú vilt ekki fara á markaði eru aðrir valkostir í boði Kensington High Street (neðanjarðarlest með sama nafni) og svæðið frá Covent Garden og niður að Oxford street. Þar er líka mjög gott að versla! Ef það eru skór sem þú leitar að er got að benda á Neil Street. Það getur verið talsvert þægilegra að versla á virkum dögum – þá er mun rólegra andrúmsloft.

Líflegt næturlíf

Þegar þú ert í London er nauðsynlegt að kíkja á næturlíf borgarinnar. Það eru gríðarmargir krár, pöbbar og klúbbar í borginni og það eina sem þú þarft að gera er að velja. Ef þú ert í stuði fyrir partý og langar út að dansa eru tveir staðir sem þú verðru að prófa; Fabric (Farrington) og The End (Holborn). Staðirnir Heaven (Charing Cross) og The Cross (Mornington Cresent) eru einng mjög vinsælir og alveg þess virði að skoða. Ef þig langar bara að fara og fá þér bjór eða tvo eru litlu krárnar Lamb and Flag (Covent Garden) og Black Friar (Queen Victoria Street) kósý valmöguleikar, en það eru krár á svo að segja hverju götuhorni borgarinnar þannig að þú ættir ekki að vera í vandræðum vegna skorts á öli. Ein lokaábending er hverfið Soho þar sem má finna alls kyns flotta staði.    

Ef maginn er tómur

Sú staðreynd að í London eru fjölmargir innflytjendur frá öllum heimshornum kemur glögglega fram í fjölbreytilegri matarmenningu – en þetta er mjög ánægjulegt fyrir ferðamenn. Hinir hefðbundnu bresku réttir eru ákveðin martröð fyrir næringarfræðinga. Nokkur dæmi um breskan mat eru djúpsteiktur fiskur og franskar (e. fish and chips), bökur (e. pie), ýmis konar pylsur sem – ef þú ert heppinn – hafa meðlæti sem inniheldur eitthvað grænmeti. Bretar eru stoltir af hinni hefðbundnu sunnudagssteik (e. sundayroast) sem er mjög vinsæll réttur. Í London má þó finna mat frá svo að segja öllum þjóðarbrotum. Þú finnur víða japanska, tælenska, indverska, mexíkanska, ítalska og franska veitingastaði.                 

Nokkur ráð…

Þú getur heimsótt London allt árið um kring – það er alltaf eitthvað til að upplifa og skoða – en ef þú vilt geta eytt tíma utandyra án þess að þurfa sífellt að huga að því að hlýr klæðnaður og regnhlífar séu með í för, er best að fara að vori eða sumri. Besta leiðin til þess að komast á milli staða í London eru strætisvagnar eða neðanjarðarlestir og því er gott að fá sér Oystercard. Þú getur lagt inn á kortið þá upphæð sem hentar þér og þá getur þú farið hvert sem er, hvenær sem er.

Eitt sem þú mátt ekki gleyma á meðan þú ert í London er þakka fyrir þig. Bretar eru yfirleitt mjög kurteisir – að minnsta kosti í orði – en það er talið ókurteisi ef þú segir ekki PLEASE á eftir næstum hverri setningu þegar þú ræðir við starfsfólk á veitingahúsum eða í búðum. 

Hafa samband