Queenstown

Queenstown að nóttu til
 

Queenstown - bara adrenalín!

Á suðurenda suðureyju Nýja-Sjálands finnur þú einn af vinsælustu stöðum landsins, Queenstown. Queenstown er smábær sem býr yfir orku og krafti stórborgar. Landslagið í kringum bæinn er eitt af því sérstæðasta og mest heillandi í heiminum en hann er staðsettur á ströndum hins djúpa og bláa Wakitipu vatns og er umkringdur harðgerðum fjöllum, kristalstæru lofti, miklu skóglendi og djúpum gljúfrum. Queenstown er því mekka fyrir ferðamenn, hvaðanæva úr heiminum.

Helst af öllu er Queenstown þó gríðarvinsæll áfangastaður fyrir spennufíkla! Þar er hægt að stökkva einhver hæstu teygjustökk í heimi, fara í ævintýralegt þyrlu-rafting, þú getur prófað svifvængjaflug eða jafnvel flogið þinni eigin listflugvél. Allt er mögulegt í adrenalínhöfuðborg heimsins. Eina spurningin er hvort þú sért til í að standast áskorunina.

Miðbær Queenstown

Oft er sagt að borgin hafi fengið nafnið Queenstown vegna þess að hún væri svo falleg að drottningin gæti búið þar. En drottningar eru ekki þær einu sem hafa tekið eftir fegurð þessarar stórkostlegu borgar. Undanfarið hafa gullgrafarar, ævintýramenn, kvikmyndagerðarmenn, áhugafólk um vín, Hollywood stjörnur og forsetar Bandaríkjanna dregist að þessu töfrandi svæði og krafti fjalllendisins. Queenstown hefur samþjappaðan og fágaðan miðbæ sem fellur inn í fallegan flóa á ströndum Wakatipu vatns. Fjöllin í kringum bæinn afmarka hann og láta hann líta út fyrir að vera enn minni en hann er og það er frábært útsýni úr öllum áttum, hvert sem þú horfir. Það er alltaf góð stemming í miðbænum þar sem þú finnur blómlega bar- og kaffihúsasenu og getur einnig verslað.

Ertu til í að mæta ótta þínum?

Adrenalínfíklar finna paradís í Queenstown! Fjalllendið umhverfis bæinn, brattar brekkur og ótamdir árfarvegir gera Queenstown svæðið að risastóru leiksvæði. Allt er mögulegt… því öfgakenndara því betra!

Hentu þér niður í 109 metra djúpt gil í teygju, sjáðu heiminn eins og þú hefur aldrei séð hann áður þegar þú flýgur á hvolfi í áhættuflugvél, hoppaðu niður úr kláfi í 134 metra hæð ofan í Nevis ánna. Sameinaðu þyrluferð og frábært rafting niður Shotover ánna eða smelltu á þig brettinu og renndu þér í ósnortnum púðursnjónum hátt uppi í fjöllunum. Allt er mögulegt og þetta er bara byrjunin! Listinn er endalaus! Ertu til í að mæta ótta þínum?

Lord of the Rings landið: Einfaldlega hrífandi

Ævintýrin laða marga ferðamenn að Queenstown en það er margt annað í boði þar, jafnvel fyrir fólk sem er ekki mikið fyrir það að hætta lífi sínu við það að hoppa fram af björgum! Mesta aðdráttarafl landsvæðisins er hin einstaka náttúrufegurð sem það býr yfir. Harðgerð fjöll, glæsileg stöðuvötn, kristalstært loftið, hinir ævafornu skógar. Þetta er einfaldlega einhver af þeim allra stórkostlegustu stöðum sem þú munt nokkurn tímann koma á!

Frá miðbæ Queenstown eru margar leiðir til að kanna náttúruna í kring – bæði á vatni, landi eða úr lofti. Uppgötvaðu fjöllin með sína hvítu tinda, fossana sem steypast fram af klettabrúnum, kristalstærar uppsprettur og læki. Farðu í bátsferð yfir nótt til að upplifa Milford Sound fjörðinn eða taktu flugið í loftbelg og svífðu yfir landsvæðið þar sem Lord of the Rings myndirnar voru teknar upp að hluta til. Sestu niður, slakaðu á og njóttu ferðarinnar!

Skíði í Suður-Ölpunum

Í Queenstown eru tvö þekkt skíðasvæði, Coronet Peak og The Remarkables, en bæði eru innan tuttugu mínútna ökuferðar frá miðbænum!

Skíðatímabilið er venjulega frá miðjum júní og fram í seinni hluta september en bestu snjóskilyrðin eru venjulega í júlí og ágúst. Skíðarútur fara reglulega yfir daginn frá miðbæ Queenstown og að báðum skíðasvæðunum og aðgangspassinn dugar í lyftur á báðum svæðunum.

Að sjálfsögðu stæði Queenstown ekki undir nafni ef skíðaiðkun væri ekki tekin út fyrir þægindamörkin. Ef þú hefur efni á því er þetta rétti staðurinn til að fara i þyrlu-skíðaferð! Hvort sem þú hefur mikla reynslu eða ekki er þetta frábær upplifun, bæði fyrir skíða- og brettafólk. Þú ferð með þyrlu í hjarta Suður-Alpanna og endar á því að skíða niður frábærar brekkur með ósnortnum púðursnjó svo langt sem augað eygir. Þetta er ógleymanleg lífsreynsla!

Gisting í Queenstown: lúxus eða viðráðanlegt verð

Þar sem Queenstown er mjög vinsæll áfangastaður fyrir adrenalínfíkla, laðar bærinn aðallega að sér ungt fólk og því er þar mikið um bakpokaferðalanga. Hægt er að finna mörg vinaleg gistiheimili sem bjóða upp á einstaklingsherbergi, herbergi fyrir tvo eða jafnvel fleiri. Þú getur komist nálægt náttúrunni í Department of Conservation kofunum í fjalllendinu eða gist úti í náttúrunni sjálfri með því að tjalda á afskekktu tjaldsvæði. En Queenstown hefur líka gistimöguleika fyrir þá sem vilja hafa það aðeins þægilegra. Þar eru mörg 3, 4 og 5 stjörnu hótel sem og lúxus húsnæði til leigu.

Næturlífið

Queenstown er borg sem sefur nær aldrei, þar er líf frá morgni til kvölds. Fágaðir vínbarir, lifandi jasstónlist, og frábærir plötusnúðar. Löng sumarkvöld á bar undir berum himni þar sem þú getur fengið þér bjór sem bruggaður er á staðnum. Það toppar ekkert það að sitja við varðeld og hvíla sig eftir frábæran dag í fjallinu. Í miðbæ Queenstown eru meira en 160 barir og kaffihús. Jafnvel þó að sólin setjist hættir ævintýrið í Queenstown aldrei! 

Hafa samband